Íslandsferð Mahers

Maher í sjöunda himni á Íslandi

Maher Hafez, gestur VIMA-félaga, er kominn til landsins og er himinlifandi eftir fyrstu kynni.

Hann fór í Þjóðminjasafnið í morgun þar sem Þóra Kristjánsdóttir leiddi hann um salarkynni og sagði honum sögu ýmissa merkra gripa.
Svo var löng gönguferð í miðbænum í fylgd Oddrúnar og Ragnheiðar Gyðu. Honum þótti ekki verra þótt veðrið væri þungbúið. Þetta væri fínt gönguveður og ágætt að losna við 36 stiga Damaskushita. Einnig hafði hann samband við nokkra íslenska vini sem hann langaði að heyra í

Á næstu dögum verða svo ljúfir og liðlegir félagar á flandri með Maher á hina ýmsu staði og vonandi að það gangi allt prýðilega. Það verður svo greinilega mjög góð þátttaka í kvöldverðarboðinu þar sem meirihluti þeirra sem stuðlaði að því að hann kæmi til Íslands, munu mæta og borða lambalæri og pönnukökur. Hef enn ekki fengið svar frá nokkrum og minni á að frestur til að tilkynna sig í boðið er um hádegi föstudags, 8.júlí því við verðum að gera kokkinum viðvart. Við höfum farið yfir dagskrána sem hefur verið sett upp og ástæða er til að vera glaður yfir því hvað margir leggja hönd á plóg til að þetta verði áfram okkar góða sýrlenska vini og hjálparhellu í Sýrlandsferðunum, hið mesta ævintýri.

Ferð um Reykjanesið með Höllu Guðmundsd og Fríðu Björnsd

Föstudag 8.júlí fór Maher Hafez með þeim Guðrúnu Höllu Guðmundsdóttur og Fríðu Björnsdóttur í dagsferð á Reykjanesið. Halla sendi mér þennan skemmtilega pistil áðan og finnst tilvalið að þið kíkið á hann.

"Ferðalag okkar Fríðu með Maher um Reykjanesið gekk vel. Veðrið hefði mátt vera betra, hvasst og grenjandi rigning með köflum. Það minnti gestinn á sýrlenskan vetur, bara kaldara. Við byrjuðum á að skoða mjög fróðlega sýningu í orkuverinu í Svartsengi. Gengum um myndlýsta gjá í kjallara þar sem gefin var afar glögg mynd af jarðfræðinni og aðferðum gufuvinnslunnar. M.a.s. gátum við framkallað jarðskjálfta með því að ýta á hnapp, þ.e. við fengum hávaðann sem var ærinn. Ég held að Maher hefði tekið næstu flugvél heim hefðum við getað “búið til” hreyfinguna líka.
Þá brunuðum við út á Garðskaga. Í Sandgerði skoðuðum við sjávardýrasafn. Þar skrifaði hann pistil á sínu móðurmáli í gestabókina. Fyrsta arabískan í þeirri bók. Einnig snæddum við þar á “Vitanum” afar góðan steiktan þorsk, og hvítkálssúpu á undan. Vorum öll að bragða slíka súpu í fyrsta sinn. Hún var góð.
Þá lá leið okkar um Keflavík og að Reykjanesvita. Þar stóð okkar maður á bjargbrún í hvassviðrinu og myndaði brimið með símanum sínum! Næsti bær var Grindavík og meira brim. Áfram, áfram um hlykkjóttan malarveginn til Krísuvíkur. Þar sáum við Grænavatn og skoðuðum hverasvæðið við Seltún. Óteljandi hringtorg mættu okkur í nýjast hverfinu í Hafnarfirði. Þar var eini staðurinn sem mér tókst að villast. Á endanum komumst við í miðbæinn þar og fengum okkur kaffi. Sæl og svolítið lúin komum við svo í Hörpugötuna og kvöddumst með virktum."
Þessa stundina er Maher í ferð með sex VIMAfélögum til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Síðan bjóða Jón Helgi og Jóna í Hveragerði þeim í kvöldverð heima hjá sér í Hveragerði.

Gullni þríhyrningurinn á laugardag

Maherog Vima-félagar; Þóra J., Herta, Birna, Jón Helgi, Guðlaug Pé og Júlíus Kolbeins fóru hinn klassiska hring sem ferðamenn fara, Gullfoss, Geysir og Þingvellir s.l. laugardag.Komið í Hveragerði kl. 10 á laugardagsmorgni til Jóns Helga og Jónu í morgunkaffi ala Jóna, nýbakað bananabrauð og ilmandi kaffi.Jón Helgi var á sightseeing-skónum og fékk til liðs við okkur Júlíús vin sinn sem bílstjóra.

Fyrst farið að Gullfossi og dvalið góða stund í sýnishornaveðri. Gullfoss heillaði Maher, myndaði mikið með símanum og hefði glaður viljað hafa upptökutæki til að eiga kraft fossins á bandi.Regnbogann vantaði alveg en hinn stillti Maher var frá sér numinn og lét veðursýnishornin ekki á sig fá. En þessi dagur bauð upp á afskaplega margbreytilegt íslenskt sumarveður. Við nöldruðum en Maher var sæll.Aröbum finnst rigningin góð og fossar heilla þá upp úr stígvélunum.
Næst kom Geysis-svæðið.Hverasafnið skoðað og höfðum við íslendingarnir ekki séð það áður og vorum öll mjög hrifin, fallegt og fagmennskulegt safn. Gaman að sjá þar bandaríska skólakrakka með glósubækurnar.Strokkur gaus nokkrum sinnum okkur til heiðurs og er við höfðum fengið nægju okkar af hverum og hveralykt var stungið sér inn á Hótel Geysi í súpu og salat.
Síðan var skundað á Þingvöll. Þar var hin ægifagra Peningagjá fyrsta stopp og krónan góða látin detta og óskir þuldar.Nestispakkinn opnaður, kaffi og súkkulaðikex maulað. Við það hresstist liðið og var gengið um Almanngjá og að Drekkingarhyl.Alltaf jafn gaman að koma á Þingvöll, fegurðin og sagan sem við kunnum misvel hefur áhrif á okkur íslendingana sem vorum enn að býsnast út í veðrið en Maher okkar var sæll og yfir sig hrifinn.(Reyndar feginn að vera laus við rústirnar)
Haldið til Hveragerðis þar sem Jóna beið okkar með dýrindis laxapottrétt og rabbabaraköku sem við gerðum góð skil. Jóhanna K og Elísabet Jökulsd. brunuðu austur til að vera með okkur í þessari veislu. Urðu síðan fjörugar umræður um Þingvelli og þinghald áður fyrr.
Maher var mjög ánægður með fyrstu dagana. Hann tók sérstaklega fram að hann teldi að Guðrún Halla, sem hann var í ferð með á föstudeginum um Reykjanesið ásamt Fríðu Björnsd. hlyti að vera snjallasti bílstjóri á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hún hefði farið um malarvegi eins og hún æki á hraðbrautum.
Við kvöddum Maher sem gisti hjá Jóni og Jónu. Aðrir Vima-félagar tóku við honum á sunnudag. Þá lá leiðin í Þjórsárdal og síðan í Landmannalaugar.Við skemmtum okkur afskaplega vel, og heyrðum ekki annað á Maher en hann væri hæstánægður með daginn.Viljum við sérstaklega þakka Jónu og Jóni Helga fyrir frábæra móttökur

Gleði og ánægja í Maherveislunni í gærkvöldi

Ánægja og gleði var ríkjandi í veislunni sem VIMA félagar efndu til Maher Hafez til heiðurs í gærkvöldi, þriðjudag 12.júlí í Rafveituheimilinu við Elliðaár. Um sextíu manns komu þar saman og urðu fagnaðarfundir þegar Maher heilsaði gömlum ferðafélögum. Hann virtist muna eftir öllum, kættist mjög þegar hann hitti Bjarnheiði og sá hvað hún var hress og spræk og sagði raunar að hann hefði alltaf talið að þrek sem hún sýndi þegar hún fótbrotnaði í Sýrlandsferðinni og lét það ekki hefta sig væri einstakt og á fárra færi. Um leið og Maher sá Einar bar hann hönd upp að eyra, enda Einar þekktur fyrir eftirminnilega eyrnalipurð. Og mætti svo lengi telja.

Veislunefndin hafði mætt síðdegis, sett upp borð, skreytt með blómum og kertum og á skjá voru sýndar myndir úr aðskiljanlegum Sýrlands/Líbanons/Jórdaníuferðum.
Maher sagði við mig að hann væri dolfallinn og hrærður yfir því að allt þetta fólk - og raunar fleiri en gátu komið til fagnaðarins - hefðu tekið sig saman um að bjóða sér til Íslands og vildu svo ofan í kaupið heiðra sig með þessari veislu.
JK bauð gesti velkomna og sagði fólki lítillega frá því sem Maher hefði séð fyrstu vikuna á Íslandi og þakkaði öllum kærlega fyrir að hafa lagt málinu lið. Svo var hrópað kröftuglegt ferfalt húrra fyrir Maher.Að því búnu skar Lalli kokkur ljúffengt lambakjöt ofan í viðstadda og allir tóku hressilega til matar síns. Í eftirrétt voru rjómapönnukökur og kaffi.
Maher þakkaði síðan með góðri ræðu og ítrekaði ánægju sína með Íslandsveruna. Hann sagði að fyrir komuna hefði honum aldrei dottið í hug að til Íslands gæti verið eftirsóknarvert að fara í frí en nú hefði hann skipt um skoðun og það hressilega. Hann talaði um birtuna á nóttunni og fagra náttúru sem hefði heillað hann og hann hefði ekki trúað því að óreyndu að slíka fegurð væri að finna.
Aðrir sem töluðu voru Jón Helgi úr Hveragerði og Elísabet Jökulsdóttir og mæltist báðum snöfurlega og skáldlega að vanda.Menn sátu síðan yfir kræsingum og skrafi og áttu góða stund og glöddust einnig yfir þessu tækifæri til að hittast.
Í veislulok tók Akranesfjölskyldan Maher síðan með sér í Borgarfjörðinn og stendur til að þau fari með hann á Snæfellsnes og út í eyjar og ef til vill fleira.Veisludaginn hafði Maher farið ásamt marokkoskum VIMA félaga og konu hans, í Skálholt og síðar rennt við á Stokkseyri og Eyrarbakka. Hjá þeim gisti hann nóttina áður.Bíð nú eftir að ferðahópurinn sem fór með gesti okkar í Þjórsárdal og Landmannalaugar skili inn smáferðaskýrslu.

Ferð með Maher í Þjórsárdal og Landmannalaugar

Sunnudagsmorguninn 10. júlí héldu Margrét og Þóra J. austur fyrir Fjall í suðaustan úrhelli til Jónu og Jóns Helga í Hveragerði, gestgjöfum Mahers þá stundina.
Þar var okkur boðið í kaffi og kræsingar meðan beðið var eftir restinni af ferðahópnum, þeim Álfhildi, Diddu og ErluSíðan var ekið til Selfoss að sækja villtan lax á kvöldgrillið og þaðan haldið áfram áleiðis í Þjórsárdal með stuttu stoppi í Árnesi, en þá höfðu himnagyðjurnar heldur betur látið rofa til með tilheyrandi fjalla- og jöklasýn.
Því næst var stoppað við þjóðveldisbæinn svonefnda – þ.e. endurbyggðan Stangarbæ og heimakirkju – áður en haldið var að rústunum á Stöng. Næsta stopp var á fögrum stað innst í Spönginni innan við Stöng og því næst var haldið í ferðamiðstöðina í auðninni í Hrauneyjum – sem við gáfum nafnið Café Bagdad – og þaðan var síðan brunað eftir þvottabrettuðum malarvegi og yfir ár inn í Landnmannalaugar.
Í Ferðafélagsskálanum á staðnum var Maher og haremi úthlutað langrúmi undir súð, sem minnti einna helst á setin í Stangarbænum eða baðstofufyfirkomulag til sveita forðum. Þegar svo var komið ferðasögu, höfðu himnagyðjurnar skrúfað frá vatnskrananum í efra – og það kallaði því á ómælda aðlögunarhæfni að hafa til laxinn með meðlæti og halda lífi í útigrillinu í himnasturtunni utan dyra ..... en þeirri baráttu fylgdist fjölþjóðlegt lið ferðamanna með af óskiptum áhuga. Og um síðir var sest að herlegri kvöldmáltið í eldhússkála.
Áður en lagst var til hvílu létum við líða úr okkur í Landmannalaugunum, og langrúmið ku hafa verið fullskipað þegar eina stund vantaði í óttu.
Mánudaginn 11. júlí: Eftir sameiginlegan morgunverð í seinna fallinu var haldið í göngu upp á hraunið ofan við Ferðafélagsskálann og til baka um Grænagil.Um nónleytið héldum við aftur til byggða eftir Landmannaleið sem reyndist óvenju mjúk undir dekkjum og greiðfær eftir því. Stoppuðum austan við Búrfell við fagra Fossahóla og þaðan héldum við síðan að Hellum í Landsveit til að sýna Maher stæsta manngerða helli landsins, Stórahelli, þar sem m.a. má sjá rist búmerki bænda á hellisveggjum og jafnvel einstaka rúnaristur. Svo lengi sem menn muna voru manngerðir hellarnir í Rangárvallasýslu nýttir af bændum sem fjárhús, hlöður, búr o.s.frv. allt fram á liðna öld, en ekki er vitað hversu gamlir elstu hellarnir kunni að vera. Á hellisveggjum Stórahellis á Hellum er einnig að finna bogadregnar syllur og jafnarma krossa í bogalöguðu lofti innan við upphaflegt hellisop (sem fyllt hefur verið upp í með grjóthleðslu) en slíkar minjar er að finna í ófáum manngerðum hellum í Rangárvallasýslu, sem bent gætu til kristinna trúariðkana í hellunum forðum.Það fannst Maher ekki síður líklegt því sambærilega neðanjarðarhella væri að finna frá elstu klaustrum í Sýrlandi, en aftur á móti hefur áhugann skort hjá okkur enn sem komið er að verða við tillögum fornleifafræðinga að beita aðferðum fornleifafræðinnar til að varpa ljósi á upphaflega notkun og aldur manngerðu hellanna okkar.

Úr Landsveitinni var haldið til VIMA félaganna Jóhönnu og Brahims á Selfossi sem var endastöð Mahers þann daginn. En þar fræddu þeir Maher og Brahim sem er frá Marokkó okkur yfir kaffibolla um klassíska arabísku, sem þeir félagar beittu fyrir sig eins og ekkert væri.Margt fleira var spjallað þar til við stöllur kvöddum þau hjón og Maher og héldum vestur fyrir Fjall í okkar heimaborg.

Snæfellsnes og Borgarfjörð - plús veiðiafrek

Eins og fram kom í pistlinum um veisluna fór Maher Hafez þaðan með Akranesfjölskyldunni okkar og Guðrún S. hefur nú sent mér þessa líflegu frásögn um ævintýri hans næstu tvo dagana á eftir.
Á miðvikudagsmorgni 13. júlí, eftir morgunverð hjá Ingu og Jóni, var haldið af stað í Borgarfjörðinn. Veður var lágskýjað en úrkomulaust svo ekki sást mikið til fjalla í Hvalfirðinum, en Maher er ákaflega hamngjusamur með þess konar veður svo allt var í góðu lagi hans vegna. Eftir akstur um Ferstikluháls og Dragháls yfir í Skorradal fundum við sólina við enda vatnsins, þá held ég að Maher hafi áttað sig á því hver hún var þessi fjallasýn sem við söknuðum svo mjög.Þar sem við stoppuðum á veginum var hrossahópur á beit innan girðingar. Nokkur þeirra komu strax að taka á móti okkur. Þar fékk okkar maður afar áhugavert myndefni fyrir símann sinn, auk þess sem mátti klappa þeim í bak og fyrir. Hann er alveg dolfallinn fyrir hrossunum okkar og fjallakindunum sem ganga villtar allt sumarið. Og ekki varð hann síður uppnuminn þegar við sögðum honum frá því að hross eru líka rekin á afrétt, þar sem þau ganga villt allt sumarið. Ég held að núna eigi hann sér draum um að koma til Íslands í september til að komast í íslenskar fjár- og stóðréttir, upplifa þessi villtu dýr koma til mannabyggða.

Áfram var haldið um Hestháls yfir í Bæjarveit, þar var stoppað við nýja veitingastaðinn í Fossatúni. Þar var að vísu lokað, Maher til mikillar undrunar, en útsýnið af pallinum þar, bæði til fjalla og yfir Grímsána, var engu að síður frábært.Næst var haldið að Deildartunguhver og Maher fræddur um hann og hverning vatnið rennur alla leið út á Akranes.

Síðan var haldi í Reykholt, þar sem við gengum um staðinn og skoðuðum Snorralaug og fleira. Svo voru það Hraunfossar, Húsafell og áfram upp að Kalmanstungu. Þar sem nú var orðið léttskýjað sást afar vel til fjalla og inn á jökul. Niður afleggjarann að Kalmanstungu var verið að reka hrossahóp, sennilega 30 - 40 hross, svo nú var stoppað í vegkantinum og Maher fór út og stillti sér upp fyrir aftan bílinn með (video)símann sinn og myndaði hrossin koma hlaupandi eftir veginum framhjá bílnum. Ég held að þetta atvik hafi algjörlega toppað allt annað sem Maher upplifði þennan dag, sem hann þó að öðru leyti var ákaflega ánægður með.Síðan var ekið niður Hvítársíðu og að Reykholti þar sem við borðuðum síðbúinn hádegisverð.
Eftir það fórum við niður Stafholtstungur og Vesturlandsveg um Borgarnes og út á Skaga. Um kvöldið var síðan farið inn að Glym á Hvalfjarðarströnd að borða.
Eftir matinn var haldið inn að Hvalstöð, þar sem Maher var fræddur um veru hersins þar og hvalveiðar. Við gengum um planið þar sem hvalurinn var dreginn upp og skorinn og Jón, sem gamall hvalskurðarmaður, lýsti fyrir okkur hvernig var unnið á planinu.Að morgni fimmtudags var haldið snemma af stað til Stykkishólms, þar sem við áttum bókað í eyjasiglingu um Breiðafjörðinn klukkan 11. Þar var siglt milli eyja og skerja og skoðaðir allskonar klettar og fuglalíf, auk þess sem skipstjórinn sagði sögur af ýmsum atburðum sem þarna hafa átt sér stað. Toppurinn á þessum túr var þó, þegar dreginn var fullur poki af alls konar skeljum, kröbbum, ígulkerjum o.fl. og farþegum boðið að smakka.Þarna smakkaði Maher í fyrsta sinn ýmsar tegundir af skelfiski beint úr sjónum. Áður en hann smakkaði sagðist hann hafa verið viss um að þetta væri vont og var jafnvel að hugsa um að biðja um salt á fiskinn. Honum fannst skelfiskurinn hins vegar afar góður og var ófeiminn við að biðja um meira og meira og meira....... Við Breiðafjörðinn var frekar kalt og þoka svo ekkert sást hvorki til sjávar eða fjalla. Við fórum því beina leið aftur yfir á sunnanvert Snæfellsnesið, þar sem var ágætlega hlýtt og léttskýjað. Áfram var haldið, með stoppum, að Arnarstapa. Þar gengum við klettabrúnina, skoðuðum fuglana gargandi í klettunum, brimið og höfnina, þar sem kallarnir voru að landa afla og þrífa bátana.
Næsta ferð á Snæfellsjökul var kl. 5, en þar sem sú ferð tekur 2 tíma, dagurinn orðinn langur og eftir að var að keyra rúmlega tvo tíma til baka á Skaga, ákváðum við að sleppa þeirri ferð og stoppa heldur lengur í frábæru umhverfi á Arnarstapa.Heim komum við síðan klukkan langt gengin í átta. Þar beið dýrindis kvöldverður hjá Ingu og Jóni.

Og ekki var dagurinn búinn!!!Um klukkan 10 var haldið til hafnar. Guðmundur og Þórunn eiga lítinn skemmtibát, svo næst fórum við á sjóstöng. Þar veiddi Maher sinn fyrsta fisk og hann veiddi þá marga, bæði þorsk og ýsu, en grun höfum við um að sá stóri hafi sloppið.Við sögðum Maher frá þeim sið fiskimanna að gorta af veiðinni og að segja sögur um hvernig þeir misstu þann stóra eftir karlmannlega baráttu.
Svo þegar til Sýrlands kemur getur hann lýst þeim stóra sem hann missti og veit að "sá stóri" fer stækkandi eftir því sem lengra líður og hann segir söguna oftar. Fyrir okkur var það alveg frábær upplifun að sjá veiðiáhugann grípa Maher og hann renna aftur og aftur til að fá fleiri og stærri fiska. Að landi var komið vel eftir miðnætti og það var þreyttur, en alsæll Maher sem fór að sofa þetta kvöld.
Á föstudagsmorgun var sofið út fram undir hádegi, þá var léttur hádegisverður hjá Ingu og Jóni. Nú var komið að því að skila Maher. Við fórum lengri leiðina, um Hvalfjörð, stoppuðum inní Botnsdal og víðar á leiðinni.Við Laxá stoppuðum við þar sem tveir menn voru við veiðar. Þeir voru auðsjáanlega ekki að fá neinn fisk, svo Maher sagði að rétt væri að hann færi og kenndi þeim hvernig ætti að veiða, vanur maðurinn. Síðdegis var Maher síðan færður í öruggar hendur Ragnheiðar Gyðu og Oddrúnar.

Úr einni afmælisveislu í aðra á laugardag

Ekki var setið lengi auðum höndum eftir að gestur okkar Maher Hafez, kom úr sinni velheppnuðu ferð um Borgarfjörð og Snæfellsnes með Guðrúnu S., Jóni og Ingibjörgu, Þórunni og Guðmundi. Sjá frásögn hér fyrir neðan.

Honum var boðið í tvær afmælisveislur VIMAfélaga á laugardagskvöldið. JK og Maher hófu veislukvöld hjá Þóru J. og þar hitti hann nokkra góða félaga. Afmælisbarnið bauð í lambahrygg, ákaflega ljúffengan og ís á eftir.
Þarna fékk Maher tækifæri til að ræða matarvenjur Íslendinga og finnst við borða of mikið feitmeti - þó hann hafi raunar fallið kylliflatur fyrir íslensku smjöri þessa Íslandsdaga og ýmsu öðru sem flokkast ekki beinlínis undir hollustu af ýmsum. Elísabet J. var til andsvara og hélt uppi vörnum fyrir feitmeti.Þetta var ánægjuleg stund í hvívetna.
Um tíuleytið keyrðu JK og Maher svo inn á Rauðalæk en þar hélt Hulda Waddel upp á fimmtusafmæli sitt og voru Hulda og Örn kát að hitta loks Maher en þau hafa verið í Portúgal síðustu tvær vikurnar. Óskar og Nína voru meðal boðsgesta og þau hafa heldur ekki getað verið með í Maher-gleðskapnum fyrr en þarna.
Í afmælisveislunum sagði Maher frá ævintýrum síðustu daga og sýndi "símamyndir" af veiðiskap og er þegar orðinn býsna laginn að lýsa þeim stóra sem hann missti eins og Guðrún S. minnist á í sínum pistli.
Ég skildi Maher eftir í afmælisveislu Huldu en þar voru meðal gesta Ragnheiður Gyða og Oddrún og þau fóru svo saman heim til Hörpugötu.
Nú í morgun, laugardag, veit ég ekki betur en Maher sé farinn norður í land, um Kjöl í fylgd með Gunnþóri og Ingu, Sigurbjörgu, Jóni Sigvaldasyni og Þórdísi.Hann hefur þegar haft á orði að hann langi til að koma aftur seinna. Og gott ef hann vill ekki bara setjast hér að!

Ferð til norðlenskra sveita og Maher á alþingi

Í gær, mánudag, leiddi Mörður VIMA-félagi og þingmaður Maher um alþingishúsið og sagði honum frá sögu húss og þings og hafði Maher mikið gaman að. Síðan fengu þeir sér smörrebröd á Jómfrúnni ásamt Ragnheiði Gyðu og Linda skáld og eiginkona Marðar bættist í hópinn og heilsaði upp á Maher.
Seinni hluta dags í gær var okkar maður svo á rölti um miðbæinn og var sennilega ljómandi dús við það.
Í morgun, þriðjudag ætluðu Hulda og Örn síðan að bjóða honum upp í Laxnes í Mosfellsdal og þar stóð til að hann færi á hestbak.
Um sl. helgina fór Maher með nýjum hópi norður í land og pistill um þá ferð kemur hér:

Ferð Mahers Hafez til Norðurlands í fylgd heiðurshjónanna Ingu og Gunnþórs, Þórdísar Þorgeirsdóttur, Jóns Sigurvaldasonar og Sigurbjargar sem þennan pistil ritar.Upphaflega áttum við að fara með Maher í Suðursveitina en vegna þess hvernig veðurspáin var fyrir helgina ákváðum við að taka stefnuna á Norðurland í staðinn.
Ákveðið var að taka daginn snemma og því var lagt á stað úr Vesturbænum klukkan níu.Þoka og rigning var alla leiðina að Geysi en þar stoppuðum við áður en haldið var á Kjöl. Þó að létti til eftir því sem norðar dró misstum við af fjallasýninni í vesturátt en Hofsjökull og austurfjöllin sáust nokkuð vel. Stoppað var á leiðinni að Beinhól eftir að hafði verið sögð sagan af Reynisstaðabræðrum.Þar var tekið upp nesti og Jón gaf Maher að borða hrútskjamma og rófustöppu. Inga og Gunnþór gáfu okkur að smakka þurrkaðan silung úr Þistilfirðinum sem hvorug okkar Þórdísar hafði smakkað áður. Öll vorum við sammála um að það væri hreint salgæti og borðuðum við hann eins og snakk það sem eftir var af ferðinni.
Eftir matinn bauð Inga Maher að keyra fjallajeppann sinn, nýjan Mitsubishi af flottustu gerð á íslenskan mælikvarða, og þarf vart að taka það fram að slíkan bíl hafði Maher aldrei keyrt áður. Inga hafði eftir stutt stopp á Hveravöllum fært sig fyrir í bílinn til Þórdísar en Jón kom yfir til okkar Mahers.Bíleigendurnir horfðu því á eftir okkur þeysa af stað og er ég ekki í nokkrum vafa um að það var nánast óraunveruleg upplifun fyrir Maher. Enda vorum við ekki komin niður í Blöndudal þegar hann fór að reyna að sannfæra mig um að ég yrði að eignast svona bíl.
Blöndudalurinn heillaði Maher og stoppuðum við til að taka myndir af folöldum og dást af fegurð dalsins. Síðan var haldið í Skagafjörðinn þar sem áð var í Varmahlíð og þar í ferðamannaverslun var okkur boðið upp á kaffi meðan við versluðum. Skagfirðingar kunna líkt og Sýrlendingar að slappa af.Á Akureyri var gist á Gulu Villunni í Brekkugötunni og þaðan löbbuðum við á Bautann þar sem Maher fékk að smakka svartfugl.
Eftir matinn var lagt upp í skoðunarferð um bæinn og fannst Maher Akureyri vera fallegasti bærin sem hann hefði komið í á Íslandi.Hann var óþreytandi að taka myndir, heillaðist af húsunum og gróðrinum. Þegar við gengum framhjá Sigurhæðum sagði hann okkur að í Sýrlandi væru börn látin syngja þjóðsönginn á hverjum degi í skólanum. Það er vonandi að engum detti í hug að gera slíkt hér á landi.
Hið heimsfræga næturlíf Íslendinga fór ekki framhjá Maher og átti hann erfitt með svefn vegna drykkjuláta sem vörðu alveg fram undir klukkan sex um morguninn.
Á sunnudagsmorguninn var stefnan tekin á Mývatnssveit með viðkomu við gömlu brúna á Fnjóská og þar á eftir skoðuðum við Goðafoss. Það birti til í Mývatnssveit fyrst var stoppað við upptök Laxár, síðan farið í göngferð um Kálfatjarnarströnd, þar næst var Víti skoðað og að lokum fórum við upp að útsýnisskífu við Námafjall. Þar var svo hvasst að lá við að við fykjum um koll en útsýnið var frábært.Þórdís stakk uppá að við fengjum okkur hverabrauð með taðreyktum silung og kjötsúpu í Gamla bænum í Reykjahlíð. Eftir matinn var lagt á stað suður og keyrði Maher jeppann úr Mývatnssveit að Brú í Hrútafirði. Við borðuðum kvöldmat á Gauksmýri í Miðfirði. Maher fékk sér sjávarréttasúpu með heilum humarbitum sem honum þótti góð en við hin létum lambakjötið duga. Á eftir var húnvetnskt kaffi með rababarapæi.Í Húnavatnssýslum var hávaðarok en þurrt að mestu og hiti um 5 stig þannig að í norðurferðinni fékk Maher smásýnishorn af íslensku sumarveðri. Það voru svo þreyttir en sælir ferðalangar sem kvöddust við Hörpugötuna um miðnætti.

Maher floginn

Þá er gesturinn okkar Maher Hafez floginn og þegar ég skrifa þetta er hann líklega hálfnaður til Kaupmannahafnar. Þar er stutt bið og síðan snarar hann sér til Búdapest og áfram til Damaskus. Þetta er nákvæmlega sama leið og við notum í ferðunum.

Eins og fram kom buðu Hulda og Örn honum á hestbak og var það 2ja og hálfs tíma reiðtúr upp frá Laxnesi. Hann var ákaflega ánægður og lofaði hrossið mjög en hafði láðst að spyrja hvað það héti.
Í gærkvöldi komu þeir saman sem hafa farið með Maher í ferðirnar vítt og breitt um landið. Einnig nokkrir sem hafa ekki vegna fjarvista af landinu getað verið með. Þetta var vænt og elskulegt og margir gáfu honum myndir úr ferðinni og einhverjir færðu honum Íslandsbækur og fleira.
Elísabet færði honum eftirfarandi ljóð
THE MAHER-POEM
How can it be,
a man so gentle and polite
is like a melting pot.

Is it because
he is so gentlepolite
and is steppinghis toe on Reykjanesstá,

calling the oceanwith his mobilephone.

Ég keyrði svo glaðan og ánægðan Maher út á Keflavíkurflugvöll laust fyrir hádegi. Hann bað fyrir kveðjur til allra VIMA félaga og fjölskyldna þeirra og líka þeirra sem hann hitti ekki.Held að við getum verið stolt af okkur og allt hafi tekist fagnandi.